Kröftugt hjartahnoð

Fram kemur í Morgunblaðinu 4. janúar að Bresku hjartasamtökin hvetja landsmenn til að gleyma svokallaðri munn við munn aðferð og einbeita sér þess í stað

Kröftugt hjartahnoð

Fram kemur í Morgunblaðinu 4. janúar að Bresku hjartasamtökin hvetja landsmenn til að gleyma svokallaðri munn við munn aðferð og einbeita sér þess í stað að hjartahnoði til að bregðast við hjartastoppi. Samtökin hafa fengið leikarann, fyrrverandi knattspyrnumanninn og harðjaxlinn Vinnie Jones til að aðstoða sig í nýrri auglýsingaherferð.

Sjá má myndabandið  með Vinnie Jones hér

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem almenningur er hvattur til að einbeita sér fremur að hjartahnoði í stað munn við munn aðferðarinnar. Endurlífgunarráðið í Bretlandi hefur einnig lagt áherslu á aðferðina, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

„Hringdu fyrst í 999. Svo beitirðu endurlífgun með höndunum. Og engir kossar; það er bara frúin sem fær koss á varirnar,“ segir Jones í auglýsingunni, þar sem hann sýnir réttu handtökin.

Í nýlegri skoðanakönnun, sem samtökin stóðu að, kemur fram að margir eigi erfitt með að beita munn við munn aðferðinni, sem hefur verið kallaður koss lífsins. Um helmingur þátttakenda í könnuninni, sem var framkvæmd víðsvegar í Bretlandi, sagðist vera afhuga því að beita endurlífgun vegna þekkingarskorts. Margir óttuðust að þeir yrðu lögsóttir fyrir að beita aðferðinni ekki rétt.

Bresku hjartasamtökin segja að þeir sem hafa ekki hlotið þjálfun í endurlífgun eigi að sleppa munn við munn aðferðinni og beita þess í stað kröftugu hjartahnoði. Hnoða eigi í takt við Bee Gees smellinn „Stayin' Alive“, eða tvö hnoð á sekúndu.

Fram kemur á vef Landlæknisembættisins að munn við munn öndun þyki flókin og viss tregða kunni að vera meðal almennings að beita grunnendurlífgun sem feli í sér bæði munn við munn öndunaraðstoð og hjartahnoð.

Endurlífgunarráð Íslands hvetur heilbrigðisstarfsfólk og þá sem lært hafa skyndihjálp á vettvangi að blása í sjúklinginn ef mögulegt er. Hjartahnoðið er það mikilvægasta en það er gott ef sjúklingurinn fær súrefni meðan beðið er eftir sérhæfðri aðstoð. Auk þess blástur er mjög mikilvægur í endurlífgun á börnum. Munn við munn aðferðin getur verið erfið fyrir almenning en nota má vasamaska sem hægt er að kaupa fyrir lítið verð í öllum apótekum og ekki vitlaust að eiga í sjúkrakassanum. Vasamaskana má einnig finna hjá mörgum sjálfvirkum hjartastuðtækjum.


Endurlífgunarráð Íslands