Námskeið í sérhæfðri endurlífgun II í Palestínu

Sjúkraflutningaskólinn í samvinnu við Rauða kross Íslands (RKÍ) skipulagði og kenndi á námskeiðum í sérhæfðri endurlífgun II í Palestínu í nóvember sl.

Námskeið í sérhæfðri endurlífgun II í Palestínu

Sjúkraflutningaskólinn í samvinnu við Rauða kross Íslands (RKÍ) skipulagði og kenndi á námskeiðum í sérhæfðri endurlífgun II í Palestínu í nóvember sl. Þessi námskeið eru hluti af stóru samvinnuverkefni RKÍ og palestínska rauða hálfmánans (PRCS) sem felst í því að tryggja þekkingu og hæfni í endurlífgun hjá heilbrigðisstarfsfólki í Palestínu. Sjúkraflutningaskólanum var falið að skipuleggja og framkvæma þessi námskeið og er það gert með vitund Endurlífgunarráðs Íslands sem hefur umsjón með námskeiðum í sérhæfðri endurlífgun á vegum evrópska Endurlífgunarráðsins (ERC).

Haldin voru tvö námskeið á tímabilinu 21. – 24. nóvember og voru samtals 21 nemandi á námskeiðinu. Upphaflega voru fleiri skráðir á námskeiðin og þar á meðal aðilar frá Gaza ströndinni en því miður fengust ekki tilskilin leyfi í tæka tíð þannig að þeir gátu ekki farið út af Gaza svæðinu og nemendum fækkaði sem því nam. Leiðbeinendur á námskeiðunum voru: Hildigunnur Svavarsdóttir, skólastjóri Sjúkraflutningaskólans, Freddy Lippert, læknir frá Danmörku auk bráðatæknanna Lárusar Petersen, Stefnis Snorrasonar og Sveinbjörns Dúasonar.

Námskeiðið fór fram í Ramallah, í Palestínu sem er í 14 km fjarlægð frá Jerúsalem og var öll aðstaða til fyrirmyndar, hvort sem um var að ræða kennsluaðstöðuna eða annað. Námskeiðið var kennt samkvæmt stöðlum ERC og gekk það í alla staði mjög vel. Nemendur voru mjög ánægðir, þrátt fyrir tungumálaerfiðleika á stundum, og verulega þakklátir fyrir þetta tækifæri að fá að taka þátt í slíku námskeiði. Það sem helst truflaði á námskeiðunum voru trúarlegar þarfir nemendanna sem þurfta að biðja á ákveðnum tímum. Kennarhópurinn tók að sjálfsögðu tillit til þeirra og aðlagaði stundaskrá námskeiðsins samkvæmt því J

Næstu skref í þessu samvinnuverkefni felast í því að skipuleggja kennaranámskeið í Palestínu fyrir væntanleg kennaraefni sem hafa lokið námskeiði í sérhæfðri endurlífgun II en það er eitt af stóru markmiðum verkefnisins að PRCS geti sjálft staðið fyrir þessum námskeiðum í endurlífgun og séð um að mennta sitt fólk.

Að lokum má segja að allir voru mjög sáttir, leiðbeinendur sem nemendur og langar mig að koma á framfæri þökkum til RKÍ og Sjúkrahússins á Akureyri (Sjúkraflutningaskólinn) sem hefur stutt við þetta verkefni af myndarskap en þess má geta að FSA hefur veitt starfsmanni FSA leyfi á launum til að fylgja þessum námskeiðum eftir í Palestínu.

Myndir af námskeiðinu má sjá hér undir myndir á vef endurlífgunarráðs.


Endurlífgunarráð Íslands