Endurlífgunarráð Íslands hefur ákveðið að innleiða European Trauma Course (ETC) á Íslandi. Fyrsta námskeiðið verður haldið 4.-.6. nóvember á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
ETC er framsækið tveggja og hálfsdags námskeið í móttöku og meðferð áverkasjúklinga. Námskeiðið er ætlað læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem kemur að bráðameðferð alvarlegra áverkasjúklinga.
Námskeiðið er sameiginlegt verkefni fjögurra evrópskra fagfélaga: Evrópsku endurlífgunarráðsins (ERC), Evrópska svæfingalæknafélagsins (European Society of Anaesthesiology/ESA), Evrópsku samtakanna um áverka- og bráðaskurðlækningar (European Society for Trauma and Emergency Surgery/ESTES) og Evrópska bráðalæknafélagsins (European Society for Emergency Medicine/EuSEM).
Markmið ETC er að veita þjálfun í samhæfðri meðhöndlun alvarlegra áverka með mikla áherslu á teymisvinnu, óklíniska færni (non-technical skills s.s. forystu, samhæfingu, ákvarðantöku, samskipti) og raunhæfa verklegar tilfellaæfingar. Námskeiðið er klíniskt og byggir á hagnýtum aðferðum þar sem þátttakendur verja um 85% námskeiðsins í vinnusmiðjum er byggja á tilfellaæfingum. Í tilfellunum er líkt eftir raunverulegum tilfellum á móttöku og meðhöndlun mikið slasaðra áverkasjúklinga á bráðaherbergi á bráðamóttöku.
Allt að 24 þátttakendur, þrjú teymi taka þátt í hverju námskeiði og samanstendur hvert 6-8 manna teymi af fjórum læknum úr mismunandi sérgreinum, tveim til fjórum hjúkrunarfræðingum/bráðatæknum. Teymin vinna sig í gegnum 30 stigvaxandi tilfelli sem þróa og styrkja færni í samhæfðri meðferð alvarlegra áverkasjúklinga.
Umsóknir á námskeiðið skal senda í verkefnastjóra EÍ
Áður hefur EÍ staðið að innleiðingu námskeiða í sérhæfðri endurlífgun fullorðinna (ALS/ILS) og sérhæfðri endurlífgunbarna (EPALS/EPILS) og nú síðast sérhæfðri endurlífgun nýbura NLS en þeirri innleiðingu lauk vorið 2024.
EÍ stendur að innleiðingu námskeiðanna með því að halda þau þar til Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítali hefur komið sér upp leiðbeinendahóp og er þar með orðin sjálfbær með að halda slík námskeið innan stofnananna.