Endurlífgunarráð Íslands stendur fyrir innleiðingu ETC námskeiða á Íslandi og fór fyrsta námskeiðið fram á Sjúkrahúsinu á Akureyri dagana 3-6. nóvember s.l. Að því tilefni komu sjö erlendir ETC leiðbeinendur til landsins auk þess sem tveir íslenskir leiðbeinendur í þjálfun tóku þátt í námskeiðinu. Þátttakendur á námskeiðinu voru 8 sérfræðingar og 10 hjúkrunarfræðingar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og fjórir sérfræðingar frá Landspítala.
Markmið ETC er að veita þjálfun í samhæfðri meðhöndlun alvarlegra áverka með mikla áherslu á teymisvinnu og þætti eins og samskipti, samhæfingu, ákvarðantöku og stjórnun. Skipuleggjendur bæði frá ETC, EÍ og SAk voru hæstánægðir í lok námskeiðsins.
Mikil ánægja var með námskeiðið ekki aðeins meðal þátttakenda heldur ekki síður þeirra sem stóðu að námskeiðinu fyrir hönd EÍ, SAk og ETC leiðbeinenda sem voru yfir sig hrifnir af framlagi þátttakenda, aðstöðunni í hermisetri SAk og gestrisni EÍ. En þess má geta að leiðbeinendur eru launalausir þegar kemur að því að kenna slík námskeið en EÍ stendur að öllu uppihaldi þeirra á meðan dvöl þeirra stendur á landinu. Vinna við skipulag námskeiðsins hefur staðið yfir í meira en ár, en Ísland hefur verið í röð hjá ETC nefnd síðan 2021 að fá leiðbeinendahóp hingað til lands. En hversu hratt kemur að hverju og einu landi fer t.d. eftir innviðum og getu landsins til að taka á móti slíku námskeiði. EÍ hefur áður staðið fyrir innleiðingu ALS - ILS - EPALS - EPILS og nú síðast fyrir þrem áðum NLS námskeiðum og gat því sýnt fram á góðan árangur í slíkri innleiðngu. Við erum því öll hæstánægð með að síðasta námskeiðsgerðin af námskeiðum ERC (European resuscitation council) sé loksins komin til landsins.
Hér fyrir neðan má sjá viðtöl sem tekin voru af samskiptastjóra SAk í tilefni innleiðingarinnar. (frétt á SAk)
„Algjört draumanámskeið“ á Akureyri
Ferenc Sari, gjörgæslulæknir í Norður-Svíþjóð og námskeiðsstjóra ETC námskeiðsins, segir undirbúninginn hafa verið umfangsmikinn og krefjandi. „Undirbúningurinn verður að vera góður, enda þarf margt að smella saman til þess að námskeiðið skili tilætluðum árangri.“ Hann bætir því við að það séu fleiri gerðir áverkanámskeiða haldin á Íslandi en sérstaða Evrópska áverkanámskeiðsins (ETC) sé að það sé ætlað fagfólki með að lágmarki 2-3 ára reynslu í bráðaþjónustu. Það sé ætlað fólki sem sé líklegt til að leiða teymi, bæði læknar og hjúkrunarfræðingar. „Við viljum vera gagnleg viðbót sem skiptir máli við önnur áverkanámskeið sem þegar eru í boði,“ segir hann og bætir við að teymisvinna gegni lykilhlutverki á námskeiðinu „Samskipti og sameiginlegur skilningur í teyminu eru lykilatriði í áverkameðferð. Það er það sem við leggjum mesta áherslu á.“
Ferenc lýsir dvöl sinni á Akureyri sem einstakri: „Starfsfólkið hér er hreinlega stórkostlegt og hermisetrið frábært. Þetta var hreinlega draumanámskeið – þátttakendur voru með mikla þekkingu og vel undirbúið og það var ekki síður mikilvægt að starfsfólk í stoðþjónustunni er framúrskarandi, ekki síst þau Jón G. Knutsen, Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir og þeirra teymi.“
Svínarif og plasmapokar
Jón G. Knutsen, sem kom að tæknilegum undirbúningi námskeiðsins, segir að umfangið hafi verið mun meira en á hefðbundnum endurlífgunarnámskeiðum eða hermikennslu. „Hér þurfti búnað fyrir allt sem tengist áverkum – spelkur, stuðningstæki, búnað til að barkaþræða, mjaðmagrindarspelkur, blóð- og plasmapoka – og jafnvel svínarif til að æfa brjóstholsinngrip,“ segir hann og kímir.
„Þetta er krefjandi námskeið og ótrúlega flott reynsla sem krefst bæði skipulags og sköpunargáfu. Það var mikil hugmyndaauðgi í undirbúningnum auk þess sem ýmislegt var leyst á staðnum, við bjuggum m.a. til gervi CT-skanna til að gera æfingarnar sem raunverulegastar og létum 3D prenta barka til að æfa barkaskurð.
Listin að vinna saman – líka þegar allir eru ósammála
Að sögn Hrafnhildar Lilju snérist námskeiðið miklu meira á því að leysa áverkatilfelli sem teymi heldur en kennslu í klínískri færni þó að vissulega sé hún æfð líka. Samskipti og samvinna séu það sem skiptir máli þegar á reynir. „Sett var til dæmis upp tilfelli þar sem teymið þarf að leysa verkefni þegar stjórnandi teymislæknir átti að hafa eina skoðun, skurðlæknirinn aðra, svæfingalæknirinn var ósammála þeim báðum – og þegar þau höfðu náð samkomulagi um forgangsröðun inngripa bættist við annað álit sjúkraflugslæknis og svo enn eitt frá móttakandi lækni á LSH.“ Og bætir við: „Það eru margar leiðir að sama markmiðinu og þarna þarf teymið að hafa sömu sýn og taka ákvörðun um hvað best sé að gera.“ Hún segir. „Þetta eru einmitt aðstæður sem við þurfum að æfa okkur í, það er ekki nægilegt að hafa klíníska færni til þess að gera hlutina, hana skortir yfirleitt ekki en ef vel á að ganga verða allir í teyminu að hafa sameiginlega sýn á hvernig best er að vinna hlutina. Það er það sem er svo flott við þetta námskeið, áverkateymið fékk tækifæri til að æfa sig í stöðugt meira krefjandi aðstæðum sem ekki byggðu aðeins á klínískum inngripum í takt við ástand sjúklings heldur ekki síður á samvinnu áverkateymisins. Eftir hverja einustu æfingu er síðan sést niður og ígrundað hvernig gekk svo gera megi enn betur.“ „Ég er hæstánægð með hvernig tókst til, hversu vel þátttakendur stóðu sig og hversu rosalega ánægðir erlendu kennararnir voru með okkur og hermisetrið á SAk,“ segir Hrafnhildur Lilja að lokum.