Fréttatilkynning vegna "Hjartahnoðsdagsins"

Að mati evrópska endurlífgunarráðsins væri hægt að bjarga um 100.000 mannslífum á ári ef fleiri myndu læra endurlífgun.

Fréttatilkynning vegna "Hjartahnoðsdagsins"

Að mati evrópska endurlífgunarráðsins væri hægt að bjarga um 100.000 mannslífum á ári ef fleiri myndu læra endurlífgun.

Þann 16. október n.k. er fyrsti evrópski dagurinn sem heitir á ensku „European Restart a Heart Day“ en hann hefur það að markmiði að kenna almenningi hvernig á að koma hjartanu aftur í gang hjá þeim sem hefur farið í hjartstopp. Þessi dagur er í kjölfar yfirlýsingar sem Evrópuþingið skrifaði undir í júní 2012 sem felst í því að hvetja aðildarríki Evrópu til að efla vitund, skilning og fræðslu til almennings og heilbrigðisstarfsmanna varðandi hjartastopp og endurlífgun. Evrópska endurlífgunarráðið hefur skipulagt herferð í tengslum við þennan dag þar sem lögð er áhersla á það að með þvi að endurlífga er ekki hægt að gera neitt rangt - það eina sem getur verið rangt er að gera ekki neitt!

Á hverju ári fara um 350.000 Evrópubúar í hjartastopp. Hjartastoppin geta átt sér stað hvar sem er og hvenær sem. Mikill meirihluti eiga sér stað á heimilum. Í dag lifa færri en 1 af hverjum 10 einstaklingum sem fara í hjartastopp. Endurlífgun framkvæmd af nærstöddum eykur lífslíkur 2-3 sinnum, hinsvegar er endurlífgun nærstaddra einungis veitt í um 20% tilvika þegar hjartastopp á sér stað utan sjúkrahúsa. Með því að auka þetta hlutfall væri hægt að bjarga 100.000 mannslífum í Evrópu á ári. "Því miður, fær aðeins lítill minnihluti fórnarlamba hjartaáfalls þessa mikilvægu hjálp í tíma svo hægt sé að bjarga lífi þeirra“ segir prófessor Maaret Castrén, læknir á Karolinska Institutet í Svíþjóð og formaður evrópska endurlífgunarráðsins.

Endurlífgun nærstaddra er mjög mismunandi í Evrópu, minnst er hlutfallið í Andalúsíu á Spáni (12%), svo Þýskaland (15%) en mest er hlutfallið í Hollandi (61 %) og í Svíþjóð (59 %). Lifun eftir endurlífgun er breytileg, allt frá því að vera einungis um 6%, eins og í Austur-Evrópu upp í mjög hátt hlufall eins og í Hollandi og Noregi þar sem lifun er allt að 40%. "Ef hægt væri að bæta lifun eftir endurlífgun eins og best gerist í Evrópu þá væri hægt að bjarga um 100.000 mannslífum á ári hverju í Evrópu" segir Maaret Castrén. Hún bætir við að ef fleiri væru þjálfaðir (t.d. á opinberum stöðum eins og flugvöllum, íþróttaleikvöngum, hótelum o.fl.) og ef fleiri sjálfvirk hjartastuðtæki (AED) yrðu staðsett á ákveðnum stöðum væri hægt að koma í veg fyrir um 50% af dauðsföllum í kjölfar hjartastopps. Til að setja þessar tölur í samhengi, þá jafngildir dauði 350.000 manna eftir hjartastopp um 1.000 dauðsföllum á dag alla daga ársins í Evrópu eða eins og að 2 fullsetnar Jumbo þotur myndu hrapa á hverjum degi og enginn lifa af. Til samanburðar deyja 28.000 manns í Evrópu á ári hverju í umferðarslysum en þrátt fyrir það er fjárfesting í vegaframkvæmdum á hverju ári mun meiri en það sem fjárfest er til þess að koma í veg fyrir hjartastopp.

Eins og fram hefur komið er markmið umræddrar herferðar að efla vitund og þekkingu almennings. Sérstaklega er herferðinni beint að börnum og unglingum frá 12 ára aldri. Evrópska endurlífgunarráðið hvetur alla til að vera virka þátttakendur í þessari herferð og eru forráðamenn skóla hvattir til þess að tryggja að endurlífgunarkennsla fari fram í elstu bekkjum grunnskóla / fyrstu bekkjum framhaldsskóla. Félag læknanema, Bjargráður, hefur ákveðið að taka þátt í þessu átaki og ríður á vaðið með endurlífgunarkennslu í nokkrum grunn- og framhaldsskólum.

„Endurlífgun er auðveldari en flestir halda og getur bjargað mannslífi" segir Maaret Castrén. "Fólk er skiljanlega hrætt við að framkvæma endurlífgun en þessi vitundarvakning mun sýna að það að endurlífga er einfalt ferli sem auðvelt er að framkvæma. Almenningur hefur raunverulegt vald og getu til að bjarga mannslífum við þessar aðstæður. Jafnvel hófleg hækkun á hlutfalli almennings í að framkvæma endurlífgun gæti bjargað mörgum mannslífum". Nánari upplýsingar um þessa herferð má finna á heimasíðu Endurlífgunarráðs Íslands


Endurlífgunarráð Íslands