Nýjar leiðbeiningar í endurlífgun og skyndihjálp árið 2010.

Á næstunni verða gefnar út nýjar leiðbeiningar bæði í endurlífgun og skyndihjálp. Leiðbeiningarnar byggja á alþjóðlegum vísindarannsóknum og

Nýjar leiðbeiningar í endurlífgun og skyndihjálp árið 2010.

Á næstunni verða gefnar út nýjar leiðbeiningar bæði í endurlífgun og skyndihjálp. Leiðbeiningarnar byggja á alþjóðlegum vísindarannsóknum og sérfræðiráðgjöf og eru viðurkenndar um allan heim. Evrópska endurlífgunarráðið mun gefa út nýjar leiðbein­ingar um grunnendurlífgun, sérhæfða endurlífgun og notkun hjartastuðtækja þann 18. október. Landsfélög Rauða krossins gefa síðan út leiðbeiningar um ýmis atriði skyndi­­hjálpar, ætlaðar almenningi. Í kjölfarið þarf að endurskoða kennsluefni í endurlífgun og skyndihjálp, útbúa nýja vinnuferla fyrir heilbrigðisstarfsmenn og bjóða upp á endurmenntun fyrir fagfólk og almenning.

Endurlífgunarráð Íslands og Skyndihjálparráð Íslands telja mikilvægt að staðið sé faglega að útgáfu nýrra leiðbeininga í endurlífgun og skyndihjálp hér á landi og innleiðing þeirra samhæfð eins og kostur er. Í því augnamiði verða megin atriði nýju leiðbeininganna um grunnendurlífgun og sérhæfða endurlífgun þýddar og gefnar út af Endurlífgunarráði Íslands og Skyndihjálparráði Íslands í samvinnu við Landlæknis­embættið. Verða þær svo aðgengilegar á heimasíðu Endurlífgunarráðs Íslands (www.endurlifgun.is) og Landlæknis (www.landlaeknir.is) í upphafi árs 2011. Nýju leiðbeiningarnar í skyndihjálp verða hinsvegar gefnar út af Rauða krossi Íslands í kennslubókinni Skyndihjálp og endurlífgun, þú getur hjálpað þegar á reynir í henni verður einnig fjallað um grunnendurlífgun. Bókin er væntanleg á vormánuðum 2011 sjá nánar síða á heimasíðunniwww.raudikrossinn.is  Mælst er til þess að farið verði að vinna og kenna eftir nýjum leiðbeiningum eigi síðar en þann 1. mars á næsta ári.  

Bestu kveðjur

 Felix Valsson formaður Endurlífgunarráðs Íslands  

Gunnhildur Sveinsdóttirritari Skyndihjálparráðs Íslands 

Bréf þetta er sent á öll sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og hjúkrunar og dvalarheimili, auk ýmissa heilbrigðisstofnanna og fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.


Endurlífgunarráð Íslands