Leiðbeinenda námskeið (GIC) og námskeið í sérhæfðri endurlífgun II (ALS) í Ramallah Palestínu maí 2013

Sjúkraflutningaskólinn skipulagði leiðbeinendanámskeið í sérhæfðri endurlífgun (GIC – general instructor course) og námskeið í sérhæfðri endurlífgun II

Leiðbeinenda námskeið (GIC) og námskeið í sérhæfðri endurlífgun II (ALS) í Ramallah Palestínu maí 2013

Undirbúningur

Sjúkraflutningaskólinn skipulagði leiðbeinendanámskeið í sérhæfðri endurlífgun (GIC – general instructor course) og námskeið í sérhæfðri endurlífgun II (ALS Advanced life support) í Ramallah í Palenstínu og var það hluti af samkomulagi milli Rauða hálfmánans í Palestínu (PRCS) og Rauða Kross Íslands. Námskeiðin fóru fram í maí 2013. Leiðbeinendur komu frá Íslandi og Danmörku og voru Dr. Freddy Lippert, læknisfræðilegur stjórnandi utanspítalaþjónustu í Kaupmannahöfn, Dr. Anne Lippert, svæfingarlæknir, Framkvæmdastjóri læknisfræðilegs kennsluseturs í Kaupmannahöfn, Hildigunnur Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri bráða- fræðslu og gæðasviðs Sjúkrahússins á Akureyri, Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun og skólastjóri Sjúkraflutningaskólans og Sveinbjörn Dúason bráðatæknir.

Leiðbeinenda námskeið í sérhæfðri endurlífgun (GIC)

Níu þátttakendur sem allir höfðu verið áður valdir sem leiðbeinendaefni (IPs) á ALS námskeiðum í Palestínu (2009 og 2011) sóttu námskeiðið. Markmið námskeiðsins var að þjálfa þátttakendur til að verða fullgildir leiðbeinendur, en til þess þarf að fara á leiðbeinendanámskeið (GIC) og kenna síðan sem leiðbeinandi í þjálfun a.m.k. tvö námskeið í sérhæfðri endurlífgun II (ALS). Námskeiðið stóð í tvo daga. Allir þátttakendur stóðu sig mjög vel á námskeiðinu og luku því sem leiðbeinendur í þjálfun (ICs). Leiðbeinendur námskeiðsins unnu vel saman og voru mjög ánægðir með útkomuna á námskeiðinu. Eftir námskeiðið fengu leiðbeinendur í þjálfun tækifæri til þess að kenna á ALS námskeiðum sem á eftir fylgdu.

Þátttakendur og námskeiðsstaður

Alls voru tuttugu og sjö þátttakendur á námskeiðunum tveimur í sérhæfðri endurlífgun II (ALS), fjórtán á því fyrra og þrettán á seinna námskeiðinu. Meðal þátttakenda voru fjórir sjúkraflutningamenn, þrettán hjúkrunarfræðingar, tvær ljósmæður og átta læknar. Námskeiðin voru haldin í miðstöð sjúkraflutninga sem er í húsakynnum Rauða hálfmánans (PRCS) í Ramallah.

Mat þátttakenda

Í heildina töldu þátttakendur námskeiðin vera mjög krefjandi en sögðust þó allir hafa lært heilmikið og voru ánægðir með námskeiðin. Þeim fannst erfitt að tjá sig á ensku en leiðbeinendur höfðu mikinn skilning á því og báðu bæði aðra þátttakendur ásamt innlendum leiðbeinendum í þjálfun að þýða þegar þörf var á. Vegna menningarlegra venja voru bænatímar inni í stundaskrá námskeiðanna sem voru tíu mínútur í senn í kringum 12:30 og aftur 16:30.

Niðurstaða

Allir þátttakendur þurfa að standast símat á meðan námskeiðinu stendur auk verklegs og skriflegs lokaprófs. Tuttugu og fjórir af tuttugu og sjö þátttakendum af báðum námskeiðunum stóðust verklega prófið. Ellefu þátttakendur féllu á skriflega prófinu og þurfa því að taka það upp þegar næsta  námskeið í sérhæfðri endurlífgun II verður haldið í Ramallah. Tvö leiðbeinenda efni (IPs) voru valin af námskeiðunum tveim, einn af hvoru námskeiði.

Niðurstaða

Leiðbeinendur og stýrihópur verkefnisins í Ramallah voru allir sammála um að þessi námskeið væru nauðsynleg fyrir þennan hóp heilbrigðisstarfsmanna og mikill áhugi er fyrir að halda þessu verkefni gangandi. Í dag eru tvö leiðbeinendaefni (IPs) og níu leiðbeinendur í þjálfun sem eiga eftir að kenna á a.m.k.einu námskeiði til að ná fullgildum réttindum sem leiðbeinendur í sérhæfðri endurlífgun. Sóst verður eftir aðstoð evrópska endurlífgunarráðsins (ERC) í því ferli að gera Rauða hálfmánann færan um að halda eigin námskeið með innlendum leiðbeinendum.

Samantekt úr skýrslu Hildigunnar Svavarsdóttur, maí 2013 (sjá heildarskýrslu hér)


Endurlífgunarráð Íslands